Stóribjörn

Karlsvagninn

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Stóribjörn

Sagan um Stórabjörn á rætur að rekja til grískrar goðafræði. Þar er sagt frá Kallistó, dóttur Lýkaons konungs. Þegar hún var ung var hún valin í föruneyti Artemisar.

Artemis var verndari barnsburðar, barna og ungra dýra og var systir Apollós. Artemis setti skírlífi ofar öllu og bað Seif um eilíflegan meydóm og varð hann við ósk hennar. Artemis krafðist þess líka að Kallistó skyldi lifa skírlífi.

Seifur dró ungar jómfrúr á tálar og komst höndum yfir Kallistó. Þegar Artemis uppgötvaði að Kallistó var barnshafandi leitaði hún hefnda. Artemis breytti Kallistó því í bjarndýr sem var varnarlaust fyrir veiðimönnum.

Seifur sýndi birnunni meðaumkun og sendi Kallistó til himna þar sem hún er nú stjörnumerkið Stóribjörn. Sonur hennar, Arkas, varð forfaðir Arkadía áður en hann sameinaðist móður sinni á himninum sem Litlibjörn.

Karlsvagninn

Björtustu stjörnur Stórabjarnar mynda Karlsvagninn. Karlsvagninn minnir raunar frekar á pott en vagn Karlamagnúsar og gengur hann undir ýmsum öðrum nöfnum.

Í Norður Ameríku hefur hann verið kallaður Stóri skaftpotturinn (e. Big Dipper) og í Frakklandi Skaftausan. Á Englandi heitir hann Plógurinn.

Kínverjar sáu fyrir sér himneskan embættismann á skýi sem var fylgt eftir af vongóðum biðlurum.

Einkennilegast af öllu er þó líkast til það sem Egiptar sáu. Þeir sáu heila fylkingu nauts, lárétts manns eða guðs og flóðshest sem bar krókódíl á bakinu!

Tvær öftustu stjörnur Karlsvagnsins, Dubhe og Merak, eru svokallaðar leiðarstjörnur. Sé lína dregin beint upp frá þeim, benda þær á Pólstjörnuna.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica