Steingeitin

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Steingeitin

Grikkir tengdu stjörnumerkið Steingeitina við sveitaguðinn Pan. Pan var hálfur maður; frá mitti og niður úr var hann eins og geit, auk þess sem hann hafði horn á höfði, geitaeyru, hökutopp og alskegg. Pan var að auki dýrslegur í hegðun.

Pan kom guðunum til hjálpar þegar hann öskraði varnaðarorð til þeirra, þegar skrímslið Týfón, sem Móðir Jörð (Gaia) hafði sent, réðst til atlögu gegn þeim.

Felmtri slegnir og að áeggjan Pans, dulbjuggu guðirnir sig sem dýr til að rugla skrímslið í ríminu. Pan leitaði sjálfur skjóls í fljóti með því að breyta neðri hluta líkama síns í fisk.

Seifur glímdi við Týfon en hafði ekki erindi sem erfiði í fyrstu. Hermes og Pan hjálpuðu honum að ná fyrri styrk sem gerði honum kleift að varpa einum af þrumufleygum sínum að skrímslinu.

Skrímslið laut í lægra haldi og gróf Seifur það undir Etnufjalli á Sikiley, sem enn spúir eldi og eimyrju frá andardrætti skrímslisins.

Í þakklætisskyni fyrir þátt sinn í sigrinum, kom Seifur mynd af Pan fyrir á himninum sem stjörnumerkið Steingeitin.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica