Sefeus

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Sefeus

Sefeus var goðsögulegur konungur Eþíópíu, þó ekki þeirrar Eþíópíu sem við þekkjum í dag heldur svæðisins við suðausturströnd Miðjarðarhafsins, þar sem Ísrael, Jórdanía og Egyptaland eru í dag.

Sefeus var kvæntur Kassíópeiu, hinni hégómafullu drottningu sem stærði sig af fegurð sinni og reitti þannig Póseidon til reiði, svo hann sendi sjávarskrímsli (Hvalinn) til að herja á konungveldi Sefeusar.

Ammon-véfréttin sagði Sefeusi að færa sjávarskrímslinu dóttur sína Andrómedu sem fórn til að friðþægja Póseidon. Andrómeda var hlekkjuð við klifið en bjargað af hetjunni Perseifi, sem drap skrímslið og bað Andrómedu um að giftast sér.

Sefeus bauð til íburðarmikillar brúðkaupsveislu í höll sinni. En Andrómeda hafði verið lofuð öðrum, Fíneusi, bróður Sefeusar sem var ekki allskostar sáttur með ráðahagin.

Á meðan athöfnin stóð yfir, þustu Fíneus og fylgjendur hans inn í veislun og kröfðust þess að fá Andrómedu afhenta. Sefeus hafnaði því svo upphófst orrusta.

Sefeusi staulaðist af vettvangi og skildi Perseif einan eftir til að verja sig. Hetjan hjó niður hvern árásarmanninn á fætur öðrum og breytti þeim sem eftir voru í stein með því að sýna þeim höfuð gorgónans Medúsu.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica