Perseifur

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Perseus

Perseifur var sonur Danae, dóttur Akrisíusar konungs af Argos. Akrisíus hafði læst dóttur sína í dýflissu eftir að véfrétt nokkur sagði honum, að barnabarn hans myndi drepa hann.

Seifur heillaðist af Danae og heimsótti hana í líki gullregns sem féll í gegnum gat á dýflissunni í skaut hennar og gerði hana barnshafandi. Þegar Akrisíus varð var við hvítvoðunginn Perseif, læsti hann mæðginin í viðarkistu og kastaði þeim á haf út.

Í kistunni hélt Danae þéttingsfast um barn sitt og bað Seif um hjálp. Nokkrum dögum síðar rak kistuna á land á eyjunni Serifos, þar sem fiskimaðurinn Diktys fann mæðgingin sársvöng og þyrst. Diktys ól síðan Perseif upp sem sinn eigin son.

Bróðir Diktys var Pólydektes konungur. Hann vildi kvænast Danae en hún var treg til. Þegar Perseifur var stálpaður varði hann móður sína fyrir hinum ágenga konungi. Pólydektes sætti sig illa við það og lagði á ráðin um að losa sig við Perseif. Konungur kvað honum að færa sér höfuð gorgónans Medúsu sem eftirfarandi orð eru höfð um á Vísindavefnum:

Medúsa eða Gorgó var ein þriggja systra, gorgónanna svonefndu, en hinar tvær voru þær Sþenó og Evrýale. Gorgónurnar voru hræðilegar á að líta, og var sagt að aðeins sjávarguðinn Póseidon væri óhræddur við þær.

Medúsa hafði beittar tennur í ógurlegum skoltinum og á höfði hennar voru lifandi eitursnákar í stað hárs. Hendurnar voru úr bronsi og hún hafði gullna vængi. Augnaráðið var svo skelfilegt að allir sem litu í augu hennar urðu jafnskjótt að steini.

Ólíkt systrum sínum var Medúsa dauðleg.

Vopnaður demantasverði frá Hefæstosi, bronsskildi frá Aþenu, vængjuðum sanddölum frá Hermesi og huliðshjálmi frá Hadesi, flaug Perseifur upp á Atlasfjall þar sem systurnar dvöldu. Þar fylgdi hann slóð steingerðra manna og dýra sem höfðu verið svo óheppin að berja gorgónana augum.

Medúsa, Rubens, Perseifur, stjörnumerki
Höfuð Medúsu eftir listamanninn Peter Paul Rubens frá 1617-18. Mynd: Wikimedia Commons

Perseifur læddist óséður að dvalarstað gorgónana og beið þar til þær sofnuðu. Í skjóli nætur, á meðan Medúsa steinsvaf, horfði hann á spegilmynd hennar og komst þannig hjá því að verða að steini, brá síðan sverði sínu á loft og hjó höfuðið af henni. Úr höfðinu spratt meðal annars vængfákurinn Pegasus.

Perseifur sótti síðan höfuðið og flaug burt áður en hinir gorgónarnir vöknuðu. Blóðið draup úr höfðinu og breyttist í snáka þegar það skall á eyðimörkinni í Líbýu.

Perseifur staðnæmdist í konungsríki Atlasar en þegar Atlas neitaði Perseifi um að dvelja þar, sýndi Perseifur konungi höfuð Medúsu. Við það breyttist Atlas í fjallgarðinn sem nú ber nafn hans.

Daginn eftir hóf Perseifur sig aftur til flugs. Á ströndinni fyrir neðan sá hann glitta í íðilfagra stúlku hlekkjaða við klifið.

Þetta var Andrómeda, dóttir Sefeusar og Kassíópeiu, sem verið var að fórna fyrir sjávarskrímslinu (Hvalnum) vegna drambsemi móður hennar.

Perseifur drap skrímslið, bjargaði Andrómedu undan þessum nöturlegu örlögum og bað síðan um hönd hennar. Andrómeda játaðist Perseifi og saman flugu þau til ríkis Pólýdektesar konungs.

Perseifur kom stormandi inn í höll konungs, tók upp höfuð Medúsu og breytti konungnum og fylgjendum hans í stein. Perseifur fékk síðan gyðjunni Aþenu höfuðið sem festi það á ægisskjöldinn, skjöld Seifs sem var úr geitarskinni.

Perseifur stendur næst ástinni sinni Andrómedu á himninum. Skammt frá eru foreldrar hennar Sefeus og Kassíópeia og skrímslið Hvalurinn. Pegasus er líka í nágrenninu en Perseifur sjálfur er sýndur haldandi á höfði Medúsu.

Í miðju höfðinu er stjarnan Algol, nefnd Djöflastjarnan. Hún breytir birtu sinni á 2,9 dögum, eins og Medúsa sé að depla auganum.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica