Örninn

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Örninn

Í grískri og rómverskri goðafræði var örninn sagður örn Seifs (Júpíters) sem bar og sótti þrumufleygana sem guðinn laust að óvinum sínum. Örninn tengist þó ekki aðeins stríði, heldur líka ást.

Ein sagan segir að örninn hafi hrifið með sér Ganýmedes hinn fagra Trójuprins og flogið með hann á Ólympusfjall þar sem hann átti að þjóna Seifi.

Sumir segja að Seifur sjálfur hafi breytt sér í örn en aðrir að Seifur hafi einfaldlega sent örninn. Sjálfur Ganýmedes er svo táknaður af nágrannamerkinu Vatnsberanum og á stjörnukortum sést örninn steypa sér í átt að honum. Einnig er sagt að örninn gæti örva ástarguðsins Erosar (stjörnumerkið Örin) sem gerðu Seif ástfanginn.

Stjörnumerkin Örninn og Svanurinn tengjast líka sögunni af því, þegar Seifur varð ástfanginn af gyðjunni Nemesis sem féll þó ekki fyrir honum.

Seifur brá því á það ráð að breyta sér í svan og sannfærði Afródítu til að þykjast elta hann sem örn. Nemesis veitti svaninum skjól en lenti þá í örmum Seifs.

Til að minnast þessa kom Seifur svaninum og erninum fyrir á himninum.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica