Óríon

Veiðimaðurinn

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Óríon

Óríon var sonur sjávarguðsins Póseidons. Hann var hávaxið glæsimenni sem gat gengið á vatni og svo mikill af vöxtum að hann gat vaðið heimshöfin. 

Eitt sinn varð Óríon ástfanginn af sjö dætrum Atlasar og Pleiónu. Æðsta guðnum Seifi leist illa á það og hrifsaði systurnar til himna (Sjöstirnið). Þar gengur Óríon á eftir þeim, nótt eftir nótt, en nær aldrei til þeirra.

Óríon var mestur allra veiðimanna, vopnaður óbrjótanlegri kylfu úr bronsi. Eitt sinn stærði hann sig af því að geta vegið hvaða skepnu sem væri á Jörðinni. Þá fauk í veiðigyðjuna Artemisi sem sendi sporðdreka sem stakk risann til bana.

Óríon og Sporðdrekanum var báðum komið fyrir á himninum. Þar stendur hann enn með kylfu sína í annarri hendi en ljónshöfuð eða skjöld í hinni. Þegar Sporðdrekinn rís svo í austri, flýr Óríon undan honum og hverfur undir sjóndeildarhringinn í vestri.

Björtustu stjörnur Óríons

Óríon, stjörnumerki
Stjörnumerkið Óríon á „hvolfi“ yfir Höfðaborg í Suður Afríku. Bjartasta stjarnan ofarlega á myndinni er Síríus í Stórahundi. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Óríon skartar mörgum björtum stjörnum.

Rígel heitir bjartasta stjarna Óríons Hún er blár reginrisi í 860 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Rígel er sannkallaður risi því hann er 70 sinnum stærri en sólin og 100.000 sinnum bjartari! Rígel er í vinstri fæti Óríons, enda merkið nafnið „vinstri fótur“.

Betelgás nefnist næst bjartasta stjarnan. Hann er rauður raeginrisi í 640 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Betelgás er ein stærsta og bjartasta stjarna sem vitað er um — meira en 1000 sinnum stærri en sólin og 140.000 sinnum bjartari.

Ef Betelgás væri í miðju okkar sólkerfis í stað sólarinnar, myndi hann gleypa Jörðina, Mars og Júpíter! Betelgás er svo stór að dag einn mun hann springa. Þegar það gerist verður stjarnan bjartari en fullt tungl og mun sjást að degi til í nokkrar vikur!

Fjósakonurnar og Sverðið

Stjörnurnar þrjár í miðju Óríons kallast Fjósakonurnar eða Belti Óríons. Þær heita Alnitak, Alnilam og Mintaka (frá vinstri til hægri) og eru allar risastjörnur, miklu stærri og bjartari en sólin okkar.

Úr belti Óríons hangir sverð veiðimannsins. Í miðju sverðsins er bjartasta stjörnuverksmiðja næturhiminsins, Sverðþokan í Óríon.

Hvað er hægt að skoða í Óríon?

Messier 42, Sverðþokan í Óríon,
Mynd Hubblessjónaukans af Sverðþokunni í Óríon Mynd: NASA/ESA

Í Óríon eru margar bjartar geimþokur sem hægt er að skoða með sjónauka.

Glæsilegasta fyrirbærið er Sverðþokan í Óríon eða Messier 42. Hún er bjartasta geimþokan á næturhimninum.

Hún er í 1.340 ljósára fjarlægð frá Jörðinni og sést meira að segja með berum augum ef myrkrið er gott.

Þokan sést vel í gegnum handsjónauka og litla stjörnusjónauka. Í gegnum stjörnusjónauka er þokan grænleit með lítilli þyrpingu stjarna í miðjunni. 

Þú ættir svo sannarlega að skoða Sverðþokuna í Óríon með sjónaukanum þínum.

Til að finna hana er gott að styðjast við og prenta út þetta stjörnukort af Óríon.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica