Litlihundur

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Litlihundur

Á himninum er Litlihundur venjulega sýndur sem annar af hundum veiðimannsins Óríons

Í grískri goðafræði var litlihundur Mæra, hundur Íkaríusar, fyrsta mannsins sem guðinn Díónýsus kenndi að útbúa vín.

Þegar Íkaríus bauð nokkrum hjarðmönnum sínum að smakka, urðu þeir fljótt drukknir og óttuðust að Íkaríus hefði eitrað fyrir þeim og myrtu hann.

Hundurinn Mæra hljóp geltandi til Erigónu, dóttur Íkaríusar og lét hana vita af föður hennar. Hlupu þau til hans og þegar þau sáu líkið, sviptu þau sig sjálf lífi.

Til að minnast þessa dapurlega atburðar kom Seifur þeim fyrir meðal stjarnanna. Þar táknar Íkaríus stjörnumerkið Hjarðmanninn, Erigóna Meyjuna og Mæra Litlahund.

Morðingjar Íkaríusar flúðu til eyjarinnar Keos í Eyjahafi. Þar ríkti hungursneið og pestir gengu sem, samkvæmt goðsögninni, voru rakin til hitans frá Hundastjörnunni (Síríusi).

Aristæus, konungur Keos og sonur Apollós, bað föður sinn ráða sem sagði honum að biðja Seif griða. Seifur sá aumur á þeim og sendi sterka norðanvinda yfir Eyjahafið í 40 daga til að kæla Grikkland og grísku eyjarnar undan steikjandi hita Hundastjörnunnar.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica