Kassíópeia

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Kassíópeia

Kassíópeia var hin hégómafulla drottning í Eþíópíu. Hún var kona Sefeusar Eþíópíukonungs sem situr næst henni á himninum. Þau eru einu „hjónin“ meðal stjörnumerkjanna.

Þegar Kassíópeia greiddi langa lokka sína dag einn sagðist hún vera fallegri en sjávardísirnar. Slíka forsynju gátu sjávardísirnar ekki látið yfir sig ganga og leituðu hefnda. Ein þeirra, Amfitríta, var gift sjávarguðinum Póseidoni og bað hún hann að refsa Kassíópeiu fyrir sjálfumgleðina.

Póseidon varð að ósk þeirra. Hann sendi ógurlegt skrímsli að ströndum ríkidæmis Sefeusar sem gerði þar mikinn usla. Skrímslisins er nú minnst í stjörnumerkinu Hvalnum.

Til að friðþægja ófreskjuna hlekkjuðu Sefeus og Kassíópeia Andrómedu dóttur sína við klett og færðu skrímslinu að fórn. En í sömu andrá og sjávarskrímslið ætlaði að bíta Andrómedu, kom hetjan Perseifur aðvífandi, drap skrímslið og bjargaði Andrómedu.

Í refsingarskyni var Kassíópeiu færð upp á himininn. Þar situr hún í hásæti sínu og strýkur hár sitt. TIl að bæta ofan á refsinguna var hún dæmd til að hringsóla að eilífu um norðurpól himins og hangir hún þar stundum á hvolfi, skelfingu lostin.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica