Hvalurinn

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Hvalurinn

Þegar Kassíópeia, kona Sefeusar Eþíópíukonungs, stærði sig af því að vera fegurri en sjávardísirnar, móðgaðist sjávarguðinn Póseidons svo, að hann sendi skrímsli til að herja á ströndina við ríkidæmi Sefeusar. Skrímslið var sérkennileg blanda kjaftstórs landdýrs með framfætur sem fastir voru á hreistraðan búk sæslöngu.

Sefeus leitaði ráða hjá véfrétt til að losna við óværuna. Véfréttin sagði honum að fórna dóttur sinni Andrómedu sem var svo hlekkjuð við ströndina þar sem hún beið svo nöturlegra örlaga sinna.

Andrómeda var skelfingu lostin þegar hún sá skrímslið nálgast óðfluga, eins og risavaxið skip. Í sama mund og skrímslið ætlaði að gæða sér á henni, kom hetjan Perseifur aðvífandi og steypti sér eins og örn á bak skrímslisins. Perseifur stakk það aftur og aftur með sverði sínu uns það féll aftur í sjóinn og drapst.

Til að minnast þessa atburðar var skrímslinu komið fyrir á himinninn sem stjörnumerkið Hvalurinn.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica