Herkúles

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Herkúles

Herakles (eða Herkúles eins og rómverjar kölluðu hann) var sonur Seifs og dauðlegrar konu, Alkmenu, sem þótti einstaklega fögur.

Seifur hugðist gera Herakles ódauðlegan meðan hann var smábarn með því að leyfa honum að sjúga mjólk úr brjósti Heru. Herakles tók nokkra sopa á meðan Hera svaf en hún vaknaði við bröltið, reif brjóst sitt úr munni Heraklesar svo hún spýttist þvert yfir himininn og myndaði Mjólkurslæðuna (vetrarbrautina).

Herakles varð manna stærstur, sterkastur og vopngöfugastur allra. Yfir honum grúfði hins vegar alltaf afbrýðisemi Heru. Hera gat ekki vegið hann en sór þess eið að gera líf hans eins erfitt og mögulegt var.

Undir álögum hennar varð Herakles börnum sínum að bana í bræðiskasti. Til að bæta fyrir þá synd spurði Herakles véfréttina í Delfí hvað hann gæti gert. Véfréttin skipaði honum að þjóna Evrýsteifi, konungi Mýkenu, í 12 ár.

Evrýsteifur lagði tólf þrautir fyrir Herakles og leysti hann þær allar af stakri prýði. Fórnarlömbum sumra þrautanna er minnst í ýmsum stjörnumerkjum á himninum, til dæmis Ljóninu, Krabbanum, Vatnaskrímslinu og Drekanum.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica