Harpan

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Harpan

Stjörnumerkið Harpan er nefnt eftir hljóðfærinu sem Hermes, sendiboði guðanna, fann upp og gaf hálfbróður sínum, tónlistarguðnum Apolló.

Apolló gaf syni sínum Orfeusi hörpuna þegar Orfeus var barn og kenndu listagyðjurnar honum að leika á hana. Sagt er að jafnvel náttúran sjálf hafi staldrað við til að hlýða á dáleiðandi tóna hörpuleiksins.

Þegar Evrídís kona Orfeusar dó af völdum snákabits var hún færð til Hadesar í undirheimunum. Uppfullur af sorg elti Orfeus hana í von um að fá hana aftur til jarðar í einn dag.

Við komuna í undirheima lék Orfeus fyrir Hades og sannfærði hann um að sleppa konu sinni. Hades setti þó það skilyrði að Orfeus skyldi ekki líta aftur á konu sína á heimleiðinni.

Í þann mund sem hann sá aftur til sólar sneri hann sér við og leit á konu sína sem þá hvarf ásjónu hans að eilífu. 

Dag einn sat Orfeus undir tré við heimili sitt og söng. Þá réðust nokkrar konur á Orfeus, rifu hann í sundur og vörpuðu höfði hans í Hebrus-fljót þar sem það flaut syngjandi alla leið til eyjarinnar Lesbos.

Hörpunni var líka varpað í fljótið og flaut sömuleiðis til Lesbos þar sem hún strandaði nærri hofi Apollós.

Apolló sannfærði þá himnaguðinn Seif um að hljóðfærið skuli gert að stjörnumerki. Seifur samþykkti það og kom hörpu Orfeusar fyrir milli Herkúlesar og Svansins.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica