Andrómeda

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Andrómeda

Prinsessan Andrómeda var hin íðilfagra dóttir Sefeusar konungs og Kassíópeiu drottningar.

Kassíópeia var drambsöm og stærði sig af fegurð sinni. Í sjálfumgleði sinni kvaðst hún meira að segja fegurri en sjávardísirnar. Við það gátu dísirnar ekki sætt sig og báðu sjávarguðinn Póseidon um að refsa Kassíópeiu rækilega.

Póseidon varð við óskinni. Hann sendi skelfilegt skrímsli til að herja á strendur ríkidæmis Sefeusar og Kassíópeiu. Sefeus vissi ekki sitt rjúkandi ráð og bað véfrétt um aðstoð. Véfréttin sagði honum að eina leiðin til að friða skrímslið væri að færa því dóttur sína, Andrómedu, að fórn.

Blásaklaus var Andrómeda hlekkjuð við á ströndina til að bæta fyrir misgjörðir móður sinnar. Andrómeda lá náföl af skelfingu og grét örlög sín þegar hetjan Perseifur kom aðvífandi. Hann hafði þá nýhoggið höfuðið af Gorgónanum Medúsu.

Skrímslið var um það bil að gæða sér á Andrómedu þegar Perseifur stökk á bak þess og stakk með sverði sínu. Skrímslið drapst. Andrómeda var hólpin. Perseifur bað um hönd hennar og bar honum síðar sjö börn, sex syni og eina dóttur.

Sagt er að gyðjan Aþena hafi sett mynd af Andrómedu meðal stjarnanna eftir að Andrómeda dó til að heiðra minningu hennar. Á himninum stendur hún hlekkjuð milli Perseifs og móður sinnar Kassíópeiu. Stjörnumerkið Fiskarnir skilja hana frá sjávarskrímslinu, stjörnumerkinu Hvalnum.

Hvað er hægt að skoða í Andrómedu?

Andrómeduvetrarbrautin, Messier 31
Auðvelt er að sjá Andrómeduvetrarbrautina með handsjónaukum og litlum stjörnusjónaukum. Mynd: ESA/Hubble & Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide de Martin

Andrómeduvetrarbrautin er frægasta fyrirbærið í stjörnumerkinu Andrómedu. Hún er þyrilvetrarbraut, svipuð þeirri sem við búum í, en mun stærri og inniheldur miklu fleiri stjörnur.

Andrómeduvetrarbrautin er í um 2,2 milljóna ljósára fjarlægð frá okkur. Hún er því nálægasta stóra vetrarbrautin við vetrarbrautina okkar. Eftir um fimm milljarða ára munu þær tvær rekat saman og mynda að lokum eina stóra vetrarbraut.

Andrómeduvetrarbrautin sést með berum augum á dimmri, heiðskírri nóttu. Þú getur auðveldlega séð hana með handsjónauka og litlum stjörnusjónaukum.

Til að finna Andrómeduvetrarbrautina er gott fyrir þig að styðjast við þetta stjörnukort.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica