Tvíburarnir

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Tvíburarnir

Sagan segir að Kastor og Pollux (Pólýdevkes) hafi verið tvíburasynir Ledu Spörtudrottningar en átt hvor sinn föðurinn.

Leda var vergjörn og svaf hjá Seifi (sem kom til hennar í svanslíki og stjörnumerkið Svanurinn táknar) en sömu nótt svaf hún líka hjá húsbónda sínum, Tyndareifi konungi.

Bæði samböndin báru ávöxt því seinna ól Leda fjögur börn: Pollux og Helenu fögru, sem voru börn Seifs og því ódauðleg og Kastor og Klýtæmnestru, sem voru börn Tyndareifs og þar af leiðandi dauðleg.

Kastor og Pollux reyndust hinir mestu mátar. Þeim varð aldrei sundurorða og sammæltust um alla hluti. Kastor var frægur knapi og stríðsmaður sem kenndi Heraklesi skylmingar en Pollux var afburða hnefaleikakappi.

Tvíburarnir voru óaðskiljanlegir og fóru saman í leiðangurinn með Jasoni og Argóarförunum í leit að gullreyfinu.

Eitt sinn, er skipverjarnir tóku land, komu hnefaleikahæfileikar Pollux sér að góðum notum. Á landinu ríkti Amykus, sonur Póseidons, hinn mesti fantur sem leyfði engum að yfirgefa landið fyrr en einhver hafði barist við hann. Pollux bauð sig fram og felldi Amykus með einu hnefahöggi sem höfuðkúpubraut hann. Seinna komu Tvíburarnir Argóarförunum til bjargar á hafi úti.

Síðar deildu Kastor og Pollux við aðra tvíbura, Ídas og Lynkeif, um tvær fagrar yngismeyjar. Ídas og Lynkeifur voru trúlofaðir Föbe og Hilaríu en Kastor og Pollux heilluðu þær upp úr skónum. Við það gátu Ídas og Lynkeifur ekki fellt sig og börðust við Kastor og Pollux um hylli þeirra.

Lynkeifur rak sverð í gegnum Kastor en Pollux hefndi fyrir dauða bróður síns með því að drepa Lynkeif. Ídas réðst til atlögu gegn Polluxi en hafði ekki erindi sem erfiði því Seifur laust hann eldingu.

Pollux syrgði bróður sinn og bað Seif um að þeir gætu deilt ódauðleikanum. Seifur kom þeim báðum fyrir á himninum sem stjörnumerkið Tvíburarnir þar sem þeir halda utan um hvor annan, að eilífu óaðskiljanlegir.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica