Norðurljósin

  • norðurljós

Hvernig verða norðurljósin til?

Sólin sendir stöðugt frá sér hraðfleygar agnir — sólvind — út í geiminn. Sólvindurinn streymir inn að pólsvæðum Jarðar (þess vegna sjást þau aðeins í kringum heimskautin) og rekst þar á andrúmsloftið.

Þegar sólvindurinn rekst á efni í andrúmsloftinu, yfirleitt í um 100 km hæð, örvast efnið og gefur frá sér ljós. Þannig verða norðurljósin til.

Stundum verða öflugir sólblossar og kórónuskvettur á sólinni. Gusast þá mikið efni út í geiminn og sólvindurinn verður enn öflugri. Þá geta norðurljósin orðið einstaklega glæsileg.

segulsvið, norðurljós, kórónuskvettur, sólblossar, sólgos
Norðurljósin verða til þegar hraðfleygar agnir frá sólinni rekast á andrúmsloft Jarðar. Mynd: Steele Hill/NASA og Stjörnufræðivefurinn

Eru til suðurljós?

Við suðurheimskautið sjást hliðstæð ljós sem nefnast suðurljós (aurora australis).

Segulljós er samheiti yfir norður- og suðurljósin.

Af hverju eru norðurljós mismunandi á litinn?

Litadýrð norðurljósa stafar frá nitri og súrefni í andrúmsloftinu.

Algengustu litir norðurljósa eru gulgrænn, grænn og stundum rauður litur sem súrefni (og líka nitur) gefur frá sér en fjólublá litbrigði af völdum niturs eru líka algeng.

Þegar norðurljósin eru mjög dauf greinir augað enga liti og þá sýnast þau gráhvít.

Litir norðurljósa fara líka eftir hæð þeirra.

Væri lofthjúpur okkar úr öðrum efnum, til dæmis neoni eða natríumi, sæjum við rauð-appelsínugul og gul norðurljós. Á Júpíter og Satúrnusi eru norðurljósin oftast rauð vegna vetnisins í lofthjúpum þeirra.

Suðurljós úr geimnum
Suðurljós séð úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Geimstöðin er í 400 km hæð yfir Jörðinni en norðurljósin eru 300 km neðar. Þess vegna horfa geimfarnir ofan á ljósin. Grænu og rauðu litirnir verða til þegar sólvindurinn rekst á súrefni í lofthjúpi Jarðar. Mynd: NASA

Hvar og hvenær sjást norðurljós?

Ef beltið yfir Íslandi er gult eða rautt eru norðurljós sjáanleg.

Hægt er að sjá norðurljósin hvar sem er á íslandi, að því gefnu að norðurljósakraginn svonefndi sé yfir landinu, himinninn heiðskír og úti sé myrkur.

Best að fara út fyrir ljósmengun borgar og bæja til að njóta norðurljósanna.

Á myndinni hér til hliðar sést hvernig norðurljósakraginn liggur á þessari stundu yfir norðurhvelinu. Þegar hann liggur yfir Íslandi sjást norðurljós á himninum.

Stærð og umfang kragans er breytilegt og veltur á virkni sólar. Sé virkni sólar lítil er kraginn venjulega lítill en sé virkni sólar mikill er kraginn stór og breiður.

Besti tíminn til að skoða norðurljósin er á bilinu 21:00 til 01:00, þótt þau geti auðvitað sést fyrr á kvöldin og síðar á næturnar. Á Íslandi er of bjart til þess að norðurljósin sjáist á sumrin, þótt þau séu vissulega líka til staðar á þeim árstíma.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica