Tunglferðirnar

Apollo 15, Jim Irwin
Tunglfarinn Jim Irwin úr Apollo 15 fyrir framan tunglferjuna og tunglbílinn. Mynd: NASA

Tunglið er eini hnötturinn utan Jarðar sem menn hafa heimsótt hingað til. Vonandi er þess þó ekki langt að bíða þar til menn heimsækja smástirni og Mars.

Milli áranna 1969 og 1972 gengu tólf menn á tunglinu í sex tunglferðum. Auk þeirra flugu fimmtán aðrir geimfarar til tunglsins án þess þó að ganga á því.

Fyrsta tunglferðin fór fram í desember árið 1968. Þá komust þrír geimfarar í Apollo 8 á braut um tunglið og vörðu jólunum þar.

Nokkrum mánuðum seinna, þann 21. júlí 1969, stigu þeir Neil Armstrong og Buzz Aldrin í Apollo 11 fyrstir manna fæti á tunglið.

Apollo 12 lenti skammt frá Surveyor 3, ómönnuðu könnunarfari sem lenti þar tveimur og hálfu ári áðir.

Í Apollo 13 voru geimfararnir hætt komnir þegar sprenging varð um borð sem kom í veg fyrir að hægt yrði að lenda á tunglinu. Sem betur fer björguðust geimfararnir og sneru aftur til Jarðar heilir á húfi. Skömmu seinna lenti Apollo 14 þar sem Apollo 13 átti að lenda.

Í Apollo 15, 16 og 17 var lögð meiri áhersla á vísindarannsóknir. Þess vegna dvöldu geimfararnir í nokkra daga á tunglinu. Í öllum þessum leiðangrum höfðu geimfararnir bíl með sér og gátu því ekið um yfirborð tunglsins.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica