Kvartilaskipti

Af hverju vex og dvínar tunglið?

  • Tunglið, kvartilaskipti, nýtt tungl, fullt tungl, hálf tungl, vaxandi tungl, minnkandi tungl, tunglfylling

Ef þú fylgist með tunglinu í einn mánuð sérðu það vaxa uns það er orðið fullt og svo dvína þar til það er orðið nýtt. Þetta kallast kvartilaskipti. Kvartilaskipti er breytingin á útliti tunglsins frá Jörðu séð eftir afstöðu þess til sólar.

Skýringin á bak við kvartilaskiptin er sáraeinföld. Tunglið er hnöttótt og á öðrum helmingnum er dagur en nótt á hinum — alveg eins og á Jörðinni. Þegar tunglið snýst í kringum Jörðina sjáum við mismikinn hluta af upplýsta helmingnum. Hve stóran hluta ræðast af því hvernig sólin, Jörðin og tunglið raðast upp.

Þegar tunglið er milli Jarðar og sólar snýr næturhlið þess að okkur. Þá er sagt að tunglið sé nýtt. Nýtt tungl sést aldrei á himninum.

Þegar tunglið heldur áfram leið sinni í kringum Jörðina sjáum við sífellt stærri hluta af upplýstu hliðinni. Þá er sagt að tunglið sé vaxandi. Frá okkur séð vex tunglið frá hægri til vinstri. Vaxandi tungl sést alltaf á kvöldin skömmu eftir sólsetur. Fyrst er það nálægt sólinni en hækkar á lofti og fjarlægist sólina með hverju kvöldinu sem líður.

Viku eftir nýtt tungl er tunglið hálft. Þá er það búið að ferðast einn-fjórða af leið sinni í kringum Jörðina (þá er talað um fyrsta kvartil). Við sjáum hálft vaxandi tungl alltaf á kvöldin.

Fáinum dögum eftir hálft tungl er meira en helmingur orðinn upplýstir. Tunglið er þá sífellt lengur á himnum á kvöldin og næturnar.

Einni viku eftir fyrsta kvartil og tveimur vikum eftir nýtt tungl er tunglið fullt. Þá er Jörðin milli tunglsins og sólarinnar. Þá snýr öll daghlið tunglsins að okkur. Fullt tungl er á lofti alla nóttina, alveg frá sólsetri til sólarupprásar.

Næstu tvær vikur fer tunglið minnkandi. Við sjáum þá æ minn af upplýsta hluta þess. Viku eftir fullt tungl er tunglið aftur hálft. Viku síðar (og tveimur vikum eftir fullt tungl) er tunglið svo aftur orðið nýtt. Minnkandi tungl kemur alltaf upp á himininn seint á kvöldin, síðla nætur eða árla morguns. Tunglið er sem sagt alltaf minnkandi þegar þú sérð það á morgnana.

Tunglið, kvartilaskipti, nýtt tungl, fullt tungl, hálf tungl, vaxandi tungl, minnkandi tungl, tunglfylling
Tunglið vex og dvínar frá Jörðu séð þegar það gengur umhverfis Jörðina. Frá Jörðu séð sjáum við misstóran hluta af upplýstu hlið tunglsins, allt eftir því hvar tunglið er á braut sinni um Jörðina miðað við sólina. Mynd: Wikimedia Commons/Stjörnufræðivefurinn (ísl.)

Margir halda að kvartilaskipti tunglsins séu vegna þess að Jörðin varpi skugga á tunglið. Það er ekki rétt eins og sýna má fram á með einfaldri tilraun. Einu skiptin sem Jörðin varpar skugga á tunglið er við tunglmyrkva. Tunglmyrkvar verða aðeins þegar tunglið er fullt — þegar Jörðin er milli tungls og sólar og tunglið fer inn í skugga Jarðar. Að sama skapi verða sólmyrkvar aðeins þegar tunglið er nýtt — þegar tunglið er milli Jarðar og sólar og gengur fyrir sólina.

Tunglið er næstum fjórar vikur eða einn mánuð að ferðast í kringum Jörðina. Tunglið er með öðrum orðum nýtt eða fullt á fjögurra vikna fresti.

Tengt efni

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica