Úranus

  • Úranus, reikistjarna, pláneta

Úranus er fölblá og fremur sviplaus reikistjarna, sú þriðja stærsta í sólkerfinu. Hann reikar um sólina einu sinni á mannsævi í næstum 20 sinnum meiri fjarlægð frá sólinni en Jörðin. Úranus var fyrsta reikistjarnan sem fannst með sjónauka.

Úranus var guð himinsins í grískum trúarbrögðum. Himnakonungurinn Úranus var fyrsti æðsti guðinn, sonur og eiginmaður Gaju eða Móður Jarðar en þau voru foreldrar kýklópa og títana. Úranus var faðir Krónosar (Satúrnusar) og afi Seifs (Júpíters).

Hver uppgötvaði Úranus?

Þótt Úranus sjáist naumlega með berum augum virðist enginn hafa tekið eftir honum reika meðal stjarnanna fyrr á tímum. Úranus hafði sést mörgum sinnum áður en hann uppgötvaðist en var alltaf talinn eins og hver önnur fastastjarna.

William Herschel
William Herschel vildi kalla reikistjörnuna sem hann fann „Georg“!

Að kvöldi 13. mars árið 1781 beindi ensk-þýski tónlistar- og stjörnuáhugamaðurinn William Herschel heimasmíðuðum spegilsjónauka sínum til himins. Nótt eftir nótt kortlaggði Herschel himininn, stjörnu fyrir stjörnu, og fann í leiðinni ótal fyrirbæri í geimnum sem enginn hafði séð áður.

Þetta kvöld var Herschel að skoða stjörnurnar í Nautsmerkinu þegar hann kom auga á fyrirbæri sem vakti athygli hans. Hann taldi sig fyrst hafa fundið halastjörnu en nokkru síðar sannfærðist hann um að þetta væri ný reikistjarna.

En hvað átti nýja reikistjarnan að heita? Herschel vildi heiðra konung Englands, Georg III, og nefna reikistjörnuna eftir honum. Í sólkerfinu okkar yrðu þá reikistjörnurnar Merkúríus, Venus, Jörðin, Mars, Júpíter, Satúrnus og... Georg?!

Fólk var nú ekki alveg sátt við að nefna nýju reikistjörnuna Georg. Annar stjörnufræðingur stakk þess vegna upp á því, að hún fengi samskonar nafn og hinar reikistjörnurnar. Hann vildi nefna hana Úranus eftir gríska himnaguðinum. Úranus var pabbi Satúrnusar og afi Júpíters.

Hvað er Úranus stór?

Úranus er þriðja stærsta reikistjarnan í sólkerfinu. Hann er um það bil fjórum sinnum breiðari en Jörðin og 63 sinnum meiri að rúmmáli. Það þýðir að 63 Jarðir kæmust fyrir innan í Úranusi.

gasrisar, ytra sólkerfið
Gasrisarnir Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Úranus er örlítið stærri Neptúnus. Satúrnus er næst stærstur g Júpíter stærstur. Mynd: Lunar and Planetary Institute

Hvað er árið langt á Úranusi?

Úranus er miklu lengra frá sólinni en Jörðin. Hann er þess vegna mun lengur að ganga umhverfis sólina en Jörðin. Eitt ár á Úranusi jafngildir 84 jarðarárum.

Snýst Úranus?

Úranus, tungl,
Tungl Úranusar ganga upp og niður fyrir reikistjörnuna. Mynd: ESO

Eitt það allra forvitnilegasta við Úranus er sérkennilegur möndulhalli hans. Þegar William Herschel fann fyrstu tvö tungl Úranusar, tók hann eftir því að þau gengu upp og niður fyrir reikistjörnuna en ekki þvert fyrir hana eins og tungl annarra reikistjarna. Þetta þýðir að tunglmyrkvar eru ákaflega sjaldgæfir á Úranusi og verða aðeins á 42 ára fresti þegar miðbaugurinn snýr að sólinni.

Möndull Úranusar hallar 98° (til samanburðar hallar Jörðin 23,4°). Enginn veit hvers vegna Úranus hallar svona mikið. Hugsanlega varð risaárekstur snemma í sögu sólkerfisins sem velti Úranusi um koll.

Vegna möndulhallans rúllar Úranus eins og keilukúla í kringum sólina á meðan aðrar reikistjörnur snúast eins og skopparkringlur. Á Úranusi er dagurinn rúmlega 17 klukkustundir.

Eru árstíðir á Úranusi

Já! Árstíðaskipti má rekja til möndulhalla reikistjarnanna. Möndulhalli Úranusar er svo mikill og reikistjarnan svo lengi að ganga um sólina, að vetur, sumar, vor og haust og eru gerólík því sem við upplifum á Jörðinni. Möndulhallinn hefur þau áhrif að meira sólskin er á pólsvæðunum en miðbaugssvæðunum. Norður- og suðurpólarnir beinast til skiptis að sólinni og miðbaugurinn þess á milli.

Ef þú gætir staðið á norðurpól (eða suðurpól) Úranusar (sem þú gætir ekki því Úranus hefur ekki fast yfirborð), sæirðu sólina birtast við sjóndeildarhringinn og færast sífellt hærra á himininn í 21 ár. Þá renna sumarsólstöður upp og norðurpóllinn í beinni línu við sólina. Síðan tekur sólin að lækka á himninum í 21 ár uns vetur gengur í garð. Á sumrin er sem sagt samfellt sólskin í 42 ár! Að sama skapi stendur veturinn yfir í 42 ár og er myrkur allan tímann.

möndulhalli, úranus, árstíðir
Á Úranusi er vetur og sumar í 42 ár, hvort um sig. Mynd: W. H. Freeman/Stjörnufræðivefurinn

Úr hverju er Úranus?

Eðlismassi hnattar gefur góða vísbendingu um efnasamsetningu hans. Eðlismassinn er fundinn einfaldlega með því að deila massa hnattarins með rúmmáli hans. Eðlismassi Úranusar er 1,27 g/cm3 svo hann er næst eðlisléttasta reikistjarnan á eftir Satúrnusi.

Eðlismassi Úranusar er örlítið hærri en eðlismassi vatns. Við getum því dregið þá ályktun að innan í Úranusi sé talsvert magn af vatni en líka önnur efni eins og ammóníak og metan, sem og örlítið berg.

Í miðju Úranusar er sennilega kjarni úr bergi. Fyrir ofan hann er líklega lag úr fljótandi vatni, metani, ammóníaki og öðrum efnum. Þar yfir er svo þykkt gaslag úr vetni, helíumi og metani. Þar sem Úranus og reyndar Neptúnus líka virðast innihalda talsvert af vatni eru þessir hnettir oft kallaðir vatnsrisarnir eða ísrisarnir.

Af hverju er Úranus blár?

Lofthjúpur Úranusar er úr vetni, helíumi og metani. Metanið efst í lofthjúpnum gleypir rauða litinn í sólarljósinu en dreifir bláa litnum. Þess vegna er Úranus blár á litinn. Af sömu ástæðu er himininn blár á Jörðinni, nema þar er að mestu nitur að verki.

Úranus, reikistjarna, pláneta
Fölbláa lit Úranusar má rekja til metans í lofthjúpnum sem gleypir rautt ljós en dreifir bláu. Mynd: NASA/Björn Jónsson

Hvað hefur Úranus mörg tungl?

Úranus hefur að minnsta kosti 27 tungl. Flest eru úr blöndu íss og bergs. Stærsta tunglið heitir Títanía. Það er helmingi minna en tunglið okkar og áttunda stærsta tungl sólkerfisins. Önnur tungl eru fremur lítil, frá nokkrum tugum kílómetra upp í rúmlega 100 km á breidd.

Tungl Úranusar eru nefnd eftir persónum úr skáldverkum Williams Shakespeare og Alexanders Pope. Til dæmis er Títanía nefnd eftir álfadrottningunni úr Draumi á Jónsmessunótt eftir Shakespeare.

fylgitungl Úranusar
Fimm stærstu tungl Úranusar. Mynd: NASA

Hefur Úranus hringa?

hringar Úranusar
Mynd frá Voyager 2 af hringum Úranusar. Ysti hringurinn, epsilon, er bjartastur. Mynd: NASA

Já, Úranus hefur hringa eins og hinar risareikistjörnurnar. Hringarnir eru miklu þynnri, mjórri og dekkri en hringar Satúrnusar.

Hringar Úranusar fundust ekki fyrr en árið 1977. Þá fylgdust þrír bandarískir stjörnufræðingar með því þegar Úranus fór fyrir stjörnu í bakgrunni. Stjörnufræðingarnir tóku eftir að stjarnan virist hverfa og birtast aftur nokkrum sinnum fyrir og eftir að hún hvarf á bak við Úranus sjálfan. Eina útskýringin á því að stjarnan blikkaði svona var sú að Úranus hlaut að hafa hringa.

Uppgötvunin var staðfest árið 1986 þegar Voyager 2 flaug framhjá Úranusi og tók mynd af hringunum. Í leiðinni fundust tveir aðrir daufir hringir. Í heild eru hringar Úranusar þrettán talsins, nefndir zeta, 6, 5, 4, alfa, beta, eta, gamma, delta, lambda og epsilon — ekkert sérstaklega rómantísk eða spennandi nöfn.

Hringarnir eru sennilega úr mjög rykugum ísögnum. Stærstu agnirnar eru sennilega álíka stórar og ísjakarnir á Jökulsárlóni, bara miklu skítugri.

Get ég séð Úranus á himninum?

Já, þú getur séð Úranus á himninum en nauðsynlegt er að styðjast við stjörnukort til að finna hann og stjörnusjónauka til að skoða hann. Best er að nota nokkuð mikla stækkun, helst yfir 100-falda og því stærri sem sjónaukinn er, því betra. Með sjónauka sést að Úranus er blágræn skífa en fátt annað markvert.

Staðreyndir um Úranus

Aldur:
Um 4,6 milljarðar ára
Þvermál:
51.118 km (Jörðin kæmist 4 sinnum fyrir þvert í gegnum Úranus!)
Massi:
86.810.300.000.000.000.000.000.000 kg (8,68 x 1025 kg), 14,5 sinnum þyngri en Jörðin!
Meðalfjarlægð frá sólinni:
2.748.000.000 km (19 sinnum lengra frá sólinni en Jörðin)
Snúningstími:
17 klst 25 mín
Umferðartími (um sólina):
84 ár
Hitastig efst í lofthjúpi:
–220°C
Þyngdarkraftur:
0,9 sinnum þyngdarkraftur Jarðar. Ef þú vegur 50 kg á Jörðinni værir þú 44 kg á Úranusi!
Fróðleg staðreynd:
Innan í Úranusi er lag af heitum og þéttum vökva sem er úr sömu efnum og gluggahreinsivökvar!

Lærðu meira um Úranus

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica