Hvað er sólmyrkvi?

Föstudagsmorguninn 20. mars sést sólmyrkvi frá Íslandi

06. mars 2015

  • Hámark deildarmyrkva 20. mars 2015. Mynd: Gunnlaugur Björnsson/Hermann Hafsteinsson/Stjörnufræðivefurinn

Í bókinni Fangarnir í sólhofinu standa þeir Tinni, Kolbeinn kafteinn og prófessor Vandráður frammi fyrir því að verða brenndir á báli. Leiðtogi inkanna, sonur sólarinnar, leyfir þeim þó að velja daginn örlagaríka og taka þeir sér örlítinn umhugsunarfrest.

Í fangelsinu finnur Tinni dagblað og segir syni sólarinnar svo að þeir hafi ákveðið að fórnin fari fram á afmælisdegi Kolbeins. Tinni lætur ekkert uppi um fyrirætlanir sínar og biður Kolbein að treysta sér.

Svo rennur dagurinn upp.

Tinni, Kolbeinn og Vandráður eru allir bundnir við bálköst þegar Tinni hefur skyndilega upp raust sína. Hann talar við sólguðinn og segir honum að hafna fórninni með því að hylja andlit sitt.

Það verður sólmyrkvi.

Tinni segir syni sólarinnar að hann láti sólina birtast á ný láti hann sig og vini sína lausa. Leiðtogi inkanna lofar því og sólin birtist á ný. Tinni hafði lesið í blaðinu að sólmyrkvi yrði á þessum degi á þessari stundu.

Hvað er sólmyrkvi?

Sólmyrkvi verður þegar tunglið fer fyrir sólina frá okkur séð. Þá myrkvast sólin í skamma stund og tunglið varpar skugga á Jörðina.

Sólmyrkvar geta aðeins orðið þegar sólin, tunglið og Jörðin eru í beinni línu. Þá er tunglið á milli sólarinnar og Jarðarinnar. Þá snýr næturhlið tunglsins að Jörðinni. Þá sést tunglið ekki á himninum því það er rétt hjá sólinni. 

Skýringarmynd af sólmyrkva
Sólmyrkvi verður þegar tunglið fer fyrir sólina frá Jörðu séð. Þá varpar tunglið mjóum skugga á lítið svæði á Jörðinni. Sólmyrkvar geta aðeins orðið þegar sólin, tunglið og Jörðin eru í beinni línu eins og sést á myndinni. Mynd: Hermann Hafsteinsson/Stjörnufræðivefurinn

Eru til mismunandi sólmyrkvar?

Já! Til eru þrír mismunandi sólmyrkvar.

Sólmyrkvi, almyrkvi á sólu

Almyrkvi

Þegar tunglið hylur alla sólina verður almyrkvi. Þá sést kóróna sólarinnar. Almyrkvar eru mjög sjaldgæfir. Seinast sást almyrkvi frá Íslandi árið 1954. Næst sést almyrkvi frá Íslandi árið 2026.
Sólmyrkvinn 29. mars 2006. Mynd: Snævarr Guðmundsson

Deildarmyrkvi

Þegar tunglið fer fyrir hluta sólarinnar og nær ekki að myrkva hana alla verður deildarmyrkvi. Deildarmyrkvar eru mun algengari en almyrkvar. Frá Íslandi séð er sólmyrkvinn 20. mars deildarmyrkvi.
Hringmyrkvi á sólu 31. maí 2003 sem sást vel frá Íslandi. Mynd: Snævarr Guðmundsson
Hringmyrkvi

Stundum er tunglið aðeins of langt frá Jörðinni til að myrkva alla sólina, þrátt fyrir að fara allt fyrir hana. Þá verður hringmyrkvi. Seinast sást hringmyrkvi frá Íslandi árið 2003 en þá voru þessar myndir teknar. Næst sést hringmyrkvi frá Íslandi árið 2048!

Er hættulegt að horfa á sólmyrkva?

Sólmyrkvagleraugu eru ein öruggasta leiðin til að fylgjast með sólmyrkvum
Sólmyrkvagleraugu eins og þau sem allir grunnskólanemendur á Íslandi fá að gjöf.

Já, það er hættulegt ef maður fer ekki varlega. Maður ætti aldrei að horfa á sólmyrkva án þess að nota sérstök sólmyrkvagleraugu.

Sólmyrkvagleraugun eru með sérsaktri sólarfilmu sem kemur í veg fyrir að hættulegir geislar í sólarljósinu komist að augunum — kallaðir innrautt ljós og útfjólublátt ljós.

Sólmyrkvagleraugun deyfa ljósið frá sólinni svo mikið að óhætt er að horfa á hana.

Það má ALLS EKKI nota þrívíddargleraugu (3D) eða venjuleg sólgleraugu til að horfa á sólmyrkvann! Þau hleypa alltof miklu ljósi í gegn og líka hættulegu geislunum!

Ef þú ert í grunnskóla á Íslandi færðu sólmyrkvagleraugu að gjöf frá Stjörnufræðivefnum (móðursíðu Geimurinn.is!), Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Hótel Rangá, til þess að þú getir fylgst með sólmyrkvanum á öruggan hátt.

Mundu líka að það má alls ekki nota sólmyrkvagleraugun með handsjónaukum eða stjörnusjónaukum.

Hvað standa sólmyrkvar lengi yfir?

Frá upphafi til enda — frá því að tunglið byrjar að færast yfir sólina og þangað til það er farið út fyrir hana aftur — standa sólmyrkvar gjarnan yfir í um 2 klukkustundir. 

Hvenær byrjar sólmyrkvinn 20. mars?

Í Reykjavík hefst hann kl. 8:38, nær hámarki kl. 9:37 og lýkur kl. 10:39 föstudagsmorguninn 20. mars. Á öðrum stöðum á landinu getur munað einni til tveimur mínútum til og frá. 

Sólmyrkvi 20. mars 2015 úr Reykjavík from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.

Sólmyrkvinn 20. mars 2015 séður frá Reykjavík.

Hvar sést sólmyrkvinn 20. mars?

Í Færeyjum, Svalbarða og á Norðurpólnum sést almyrkvi en þar fyrir utan sést deildarmyrkvi, eins og sjá má á kortinu. Sólmyrkvinn sést eingöngu þar sem skyggðu svæðin eru á kortinu.

Ferill sólmyrkvans 20. mars 2015
Sólmyrkvinn 20. mars 2015 sést vel frá Evrópu. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Hermann Hafsteinsson

Eru sólmyrkvar á öðrum plánetum?

Já!

Sólmyrkvar verða á öllum plánetum sólkerfisins sem hafa tungl. Á Mars, Júpíter, Satúrnusi, Úranusi og Neptúnusi verða sólmyrkvar. Merkúríus og Venus hafa enga sólmyrkva því þau hafa engin tungl!

Þverganga þriggja tungla fyrir Júpíter
Þrefaldur sólmyrkvi á Júpíter! Tunglin Kallistó, Evrópa og Íó varpa skuggum sínum á Júpíter í janúar 2015. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team

Fyrir kennara

Námsefni fyrir yngsta stig grunnskóla væntanlegt.

- Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica