Fuglaskoðun í geimnum

26. september 2012

  • Mávaþokan, geimþoka, IC 2177, Sh 2-292, RCW 2, Gum 1,

Hefur þú einhvern tímann horft til himins og séð kynjaverur í skýjunum? Stjörnufræðingar gera það líka, nema skýin okkar eru kölluð geimþokur og eru óralangt úti í geimnum. Ólíkt jarðneskum skýjum sem eru úr vatni, eru geimþokur úr gasi og ryki. Stjörnufræðingar sáu fyrir sér fuglshöfuð í þessu skýi og kölluðu það Mávaþokuna.

Gasið og rykið í geimnum er svo kalt að það skín ekki nógu skært til þess að við greinum það með berum augum — þvi heitara sem fyrirbæri er, því skærar skín það. Þetta virkar líka í hina áttina. Ef þú hefur haldið á ljósaperu sem hefur logað í nokkurn tíma finnurðu að hún er mjög heit. Þokan á þessari mynd er rauðglóandi vegna mjög heitrar stjörnu í miðjunni sem markar auga mávsins. Hitinn frá þessari stjörnu hefur hitað upp umhverfið svo það glóir.

Á myndinni sést líka blá þokumóða, sérðu hana? Þetta er ryk sem heitar, ungar stjörnur í þokunni lýsa upp. Ljós stjarnanna skoppar af rykögnunum og gerir þær sýnilegar, svipað og þegar þú beinir vasaljósi að hlutum í myrkvuðu herbergi: Hlutirnir sjást vegna þess að ljósop skoppar af þeim og í augun okkar.

Þessi mynd sýnir aðeins lítinn hluta af þokunni. Skýið allt breiðir út vængi sína yfir risavaxið svæði í geimnum og lítur út eins og fugl á flugi. Þú getur skoðað myndina hér.

Skemmtileg staðreynd: Stjarnan á miðri mynd (auga mávsins) er ekki ein stjarna heldur tvær á braut um hvor aðra. Við köllum slík kerfi tvístirni!

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop.

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica