Endimörk sólkerfisins

Hvar endar sólkerfið okkar?

Ekki eru til nein skilgreind endimörk á sólkerfinu. Ein leið til að skilgreina endimörk sólkerfisins er að finna út hvar sólvindurinn byrjar að rekast á vind frá öðrum stjörnum. Það er hægt með því að fylgjast með mælingum Voyager geimflauganna sem eru á leið út úr sólkerfinu okkar.

Umhverfis sólina okkar er svæði sem stjörnufræðingar kalla sólvindshvolf. Það er segulsvið sólar. Þar blæs vindurinn frá sólinni óhindrað og rekst ekki á neinn annan vind. Þetta hvolf er líklega í laginu eins og egg. Sólin er við annan enda þessa svæðis því hún er á ferðalagi umhverfis Vetrarbrautina okkar. 

Þar sem vindur frá stjörnunum og gasið og rykið á milli stjarnanna rekst á sólvindshvolfið myndast stafnhögg. Stafnhögg má líkja við stefni skips sem klýfur sjóinn. Stjörnuvindurinn og gasið og rykið milli stjarnanna streymir í kringum sólvindshvolfið eins og sjór í kringum skip á siglingu.

Við gætum sagt að sólkerfið okkar endi þar.

Lengst af vissi enginn hvar þessi mörk voru. Árið 2013 sýndu mælingar Voyager 1 geimfarsins að mörkin eru um 120 sinnum lengra frá sólinni en Jörðin!

sólkerfið, sólvindur, sólvindshvolf, sólslíður, stafnhögg
Endimörk sólkerfisins? Þar sem vindurinn frá sólinni rekst á vind frá stjörnunum gætum við sagt að séu endimörk sólkerfisins. Mynd: NASA/Stjörnufræðivefurinn

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica