Heldur þú að þú sitjir kyrr?

01. júlí 2013

  • vetrarbraut, dulstirni

Líklega situr þú þessa stundina. Þér finnst þú kannski sitja kyrr en í rauninni ertu á fleygiferð um himingeiminn á hraða sem lætur hraðskreiðustu eldflaugar líta út fyrir að sniglast áfram! Sjáðu fyrir þér Jörðina — hún snýst einu sinni á 24 klukkustundum. Það þýðir að hún snýst með meira en 1.500 kílómetra hraða á klukkustund og þú finnur ekki einu sinni fyrir því! Jörðin ferðast líka í kringum sólina og sólkerfið sjálft er á ferðalagi um miðju Vetrarbrautarinnar. Öll þessi hreyfing og vatnsglas á borðinu nötrar ekki einu sinni!

Og það er ekki allt. Allar vetrarbrautir snúast. Vetrarbrautin okkar snýst einu sinni á 250 milljón árum eða svo. Stjörnufræðinga hefur lengi vel grunað að þessi snúningur sé knúinn áfram af gasi sem vetrarbrautin togar til sín úr efninu í kringum hana. Nú höfum við loksins séð vetrarbraut sem svolgrar í sig þessar efnisbirgðir. Á myndinni hefur listamaður reynt að teikna hvernig þetta lítur út; þú sérð vetrarbrautina í miðjunni með langa gasstrauma sem flæða inn í hana.

Þessi tiltekna vetrarbraut hefur óseðjandi matarlyst og, eins og þú, því meira sem hún étur, því stærri verður hún. Vetrarbrautir byrja með heilmikið gas en með tímanum klárast það vegna þess að nýjar stjörnur myndast úr því. Ferski gasstraumurinn sem fellur á vetrarbrautina endurnýjar birgðirnar sem þarf í nýjar stjörnur svo vetrarbrautin verður stærri og bjartari!

Fróðleg staðreynd

Við sjáum þetta gerast vegna ljóss frá óhemju björtum kjarna vetrarbrautar langt fyrir aftan en í sömu sjónlínu og hin vetrarbrautin sem er að nærast. Ljósið ferðast í gegnum allt gasið og rykið í kringum gráðugu vetrarbrautina áður en það berst til okkar. Þessi vetrarbrautin er því bókstaflega í kastljósinu sem gefur okkur enn betri mynd af henni!

Tengdar myndir

  • vetrarbraut, dulstirniTeikning listamanns af vetrarbraut sem svolgrar í sig gas sem knýr myndun nýrra stjarna. Mynd: ESO/L. Calçada/ESA/AOES Medialab

 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica