Gullbrá og reikistjörnurnar þrjár

22. júní 2013

  • Gliese 667C, Gliese 667Cd, reikistjarna, fjarreikistjarna

Gullbrá og birnirnir þrír er ævintýri um litla, vandláta stúlku, Gullbrá, sem vill hvorki að grauturinn hennar sé of kaldur, eins og Birnu mömmu, né of heitur, eins og grautur Björns pabba. Hún vill hafa grautinn eins og hjá Bangs litla: Mátulegan.

Af sömu ástæðu er það svæði í kringum stjörnu, þar sem hitastigið er mátulegt svo að vatn geti verið til staðar, stundum kallað „Gullbrársvæðið“ eða „lífbelti“ á íslensku. Á þessu svæði er hitastigið mátulegt; þar er hvorki of kalt til þess að vatn frjósi né of heitt til að vatn sjóði. Á þessum stað í sólkerfi eru aðstæður heppilegar fyrir líf að þrífast! Sjáðu til dæmis mynd númer tvö; bláa línan sýnir hvar „Gullbrársvæðið“ er í sólkerfinu okkar. Ef stjörnur eru heitari er lífbeltið lengra í burtu frá stjörnunni, en ef stjarnan er kaldari er svæðið nær henni.

Nú hafa stjörnufræðingar fundið merkilegt sólkerfi í nágrenni sólarinnar okkar. Umhverfis nálæga stjörnu sem kallast „Gliese 667C“ hafa fundist að minnsta kosti sex reikistjörnur. Af þeim eru þrjár í Gullbrársvæðinu! Aldrei áður hafa fundist svo margar reikistjörnur sem gætu haft fljótandi vatn, í kringum einu og sömu stjörnuna. Ef við finnum svo margar reikistjörnur í Gullbrársvæði margra stjarna, er hugsanlegt að líf þrífist á mun fleiri reikistjörnum í Vetrarbrautinni okkar en við töldum. Að sama skapi er miklu meiri möguleiki á að við fyndum líf!

Fróðleg staðreynd

Talan þrír virðist töfratala hjá Gliese 667C. Stjarnan hefur ekki aðeins þrjár reikistjörnur á Gullbrársvæðinu heldur er hún hluti af þrístirnakerfi! Ef líf er á einhverri reikistjörnunni, litu hinar stjörnurnar út eins og fullt tungl á himninum yfir Jörðinni — eins og sjá má á teikningunni fyrir ofan!

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop

Tengdar myndir

  • Gliese 667C, Gliese 667Cd, reikistjarna, fjarreikistjarnaTeikning listamanns af himninum yfir reikistjörnunni Gliese 667Cd. Fyrir aftan glittir í fjarlægari stjörnur þessa þrístirnakerfis (Gliese 667A og Gliese 667B) en vinstra megin við móðurstjörnuna sést ein af hinum reikistjörnunum, Gliese 667Ce, sem sigð Mynd: ESO/M. Kornmesser

 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica