Þetta er gildra!

04. júní 2013

  • myndun stjarna, halastjörnuverksmiðja

Við vitum að í alheiminum eru ótal reikistjörnur. Nærri þúsund aðrar hafa fundist hingað til á braut um fjarlægar stjörnur. Við skiljum hins vegar ekki til hlítar hvernig þær verða til. Við vitum að ungar stjörnur eru oft umluktar skífum úr ryki, eins og þeirri sem sést á myndinni. En hvernig vaxa örsmáar rykagnir í skífum ungra stjarna og verða að hnullungum, halastjörnum og að lokum bergreikistjörnum eins og þeirri sem við búum á? Þessari ráðgátu er ALMA sjónaukinn að reyna að svara.

Vandamálið í hugmyndum okkar um myndun reikistjarna snýst um hvernig stærri agnir komast af og vaxa. Stærri bergklumpar hljóta að rekast saman á miklum hraða og sundrast í smærri mola. Og jafnvel þegar það gerist ekki, „sökkva“ klumparnir inn í átt að móðurstjörnunni og geta þá ekki vaxið frekar, eins og steinn sem sekkur ofan í kviksyndi.

Rykagnirnar þurfa einhvers konar skjól þar sem þær geta vaxið uns klumparnir eru orðnir nógu stórir og traustir til að komast af upp á eigin spýtur. Þú getur séð þetta ferli í þessu svala myndskeiði. Rykgildrur af þessu tagi höfðu aldrei sést fyrr en nú þegar stjörnufræðingar festu loks eina á mynd!

Nienke van der Marel, stjörnufræðingur við Leiden stjörnustöðina í Hollandi sem hjálpaði til við þessa uppgötvun, sagði að við sæjum hér nokkurs konar halastjörnuverksmiðju. Agnirnar í rykgildrunni geta orðið nokkrir kílómetrar í þvermál!

Fróðleg staðreynd

Eitt það óvæntasta við þessa uppgötvun var lögun rykgildrunnar. Stjörnufræðingarnir bjuggust við að sjá hring en í stað hans fundu þeir mjög augljósa kasjúhnetulögun!

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop

Tengdar myndir

  • myndun sólkerfis, halastjörnuverksmiðjaTeikning listamanns af halastjörnuverksmiðju í rykskífu ungrar stjörnu. Mynd: ESO/L. Calçada

 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica