Fallega bleik

25. maí 2013

  • stjörnumyndunarsvæði, geimþoka, Bok-hnoðrar

Heimsins besti stjörnusjónauki til að skoða hinn sýnilega alheim varð 15 ára í dag. Til hamingju með afmælið Very Large Telescope! Af því tilefni var sjónaukanum beint að þessu hátíðlega fyrirbæri. Þarna gæti verið veisla í gangi þar sem bleikt er þemað og blöðrur og diskókúlur skreyta veisluna.

Þetta er augljóslega ekki veisla í geimnum, þótt hún hljómi svo sem ágætlega. Á myndinni sést glæsilegt ský úr gasi og ryki sem stjörnufræðingar kalla stjörnumyndunarsvæði. Djúpt innan í þessu fallega bleika skýi fæðast nýjar stjörnur. Því miður er rykið svo þykkt að það gleypir ljósið frá þessum nýfæddu stjörnum svo Very Large Telescope getur ekki komið auga á þær.

Nýju, skæru stjörnurnar í skýinu valda því að það er bleikglóandi. Bjarta ljósið frá þeim skín á efnið í kring og örvar það svo það tekur sjálft að skína. En hvers vegna er það bleikt? Vegna þess að mismunandi efni gefa frá sér mismunandi liti. Þetta ský er að mestu úr vetni, algengasta frumefninu í alheiminum, en vetni er bleik- eða rauðglóandi.

Fyrir framan bleika gasskýið eru ský sem minna á blöðrur en eru í raun enn þykkari kekkir úr ryki sem kallast hnoðrar Thackerays. Öflug geislun frá heitu, ungu, bláu stjörnunum í kring, mótar þau í þessi sérkennilegu form. Mjög orkuríkt ljós veðrar skýin og brjóta þau niður eins og smjörklessu á heitri steikarpönnu. Af þessum sökum munu hnoðrar Thackerays líklega sundrast áður en þeir geta sjálfir fallið saman og getið af sér nýjar stjörnur.

Fróðleg staðreynd

Á þeim 15 árum sem liðin eru frá því að Very Large Telescope var tekinn í notkunn, hefur hann gert margar stórar uppgötvanir! Til dæmis tók hann fyrstu myndina af reikistjörnu fyrir utan sólkerfið okkar (sem þú getur séð sem rauðan blett á þessari mynd), mælt aldur Vetrarbrautarinnar og margt fleira! (Og ef þú hefur áhuga á að vita, þá er Vetrarbrautin okkar 13.600 milljón ára gömul. Það væru mörg kerti til að blása á í einu!)

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop

Tengdar myndir

  • geimþoka, myndun stjarnaAfmælismynd Very Large Telescope ESO af fallega bleikum fæðingarstað stjarna. Mynd: ESO

 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica