Friðurinn rofinn í friðsælli vetrarbraut

19. mars 2013

  • NGC 1637, vetrarbraut, þyrilvetrarbraut

Árið 1999 sveif þessi vetrarbraut friðsamlega um geiminn. Skyndilega var friðurinn rofinn með mikilli sprengingu. Um var að ræða ævilok massamikillar stjörnu í einum ofsafengnasta atburði náttúrunnar. Við köllum slík fyrirbæri sprengistjörnur og var þessi nógu björt til að skína skærar en allar stjörnurnar í vetrarbrautinni samanlagt.

Stjörnufræðingar sem rannsökuðu afleiðingar sprengingarinnar tóku þessa glæsilegu mynd af vetrarbrautinni nálægu. Þau fylgdust með birtu sprengistjörnunnar dofna hægt og rólega með árunum. Nú hefur hún dofnað svo mikið að hún sést varla á myndinni. Þrátt fyrir það hafa stjörnufræðingar fundið út ýmis smáatriði um stjörnuna sem sprakk. Fyrir dauða sinn var hún risavaxin — meira en átta sinnum stærri en sólin okkar!

Þótt á ljósmyndinni sjáist kannski ekki ljós sprengistjörnunnar eru önnur áhugaverð smáatriði greinileg. Þessi vetrarbraut er þekkt sem þyrilvetrarbraut eins og sú sem við búum í. Hún dregur nafn sitt af þyrilörmunum sem sjást hverfast um bjarta miðju vetrarbrautarinnar. Þyrilarmarnir á myndinni eru úr björtum bláleitum ungum stjörnum, glóandi gasskýjum og dökkum rykslæðum.

Fróðleg staðreynd: Ein sprengistjarna getur gefið frá sér meiri orku en sólin gerir á allri ævi sinni. Samt getur sólin okkar lifað í meira en 10 milljarða ára!

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop

Tengdar myndir

  • NGC 1637, þyrilvetrarbraut, vetrarbrautHér sést þyrilvetrarbrautin NGC 1637. Mynd: ESO

 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica