Þegar rauða reikistjarnan var blá

21. janúar 2013

  • Reull Vallis, árfarvegur, Mars

Þú veist eflaust að jörðin er ekki eina reikistjarnan í sólkerfinu okkar; þær eru átta talsins. Sú sem líkist jörðinni okkar mest er Mars en hann er stundum kallaður rauða reikistjarnan vegna rauða litsins á yfirborðinu. Við komumst alltaf sífellt betur að því að í langan tíma var Mars í raun blá reikistjarna, þakin stöðuvötnum, ám og höfum eins og jörðin!

Þessar glæsilegu myndir tók Mars Express geimfarið sem er á braut um Mars. Á þeim sést árfarvegur sem liggur eftir yfirborði reikistjörnunnar. Talið er að farvegurinn hafi orðið til af völdum mikils fljóts í fjarlægri fortíð Mars, milljörðum ár áður en við mennirnir urðum til!

Það er enn vatn á Mars í dag þótt það sé frosið undir yfirborðinu og á norður- og suðurpólnum (eins og íshetturnar á jörðinni). Því gæti maður haldið að þetta væri ekkert sérstaklega merkileg uppgötvun en farvegurinn er hins vegar risavaxinn! Hann er 1.500 km langur og teygir sig lengra en Rínarfljót sem liggur í gegnum Evrópu, alla leið frá Sviss til Hollands! Þar að auki er farvegurinn 300 metra djúpur. Það er dýpra en nokkurt fljót á jörðinni!

Þesar nýju myndir Mars Express veita okkur spennandi sýn á fortíð rauðu reikistjörnunnar. Og svo virðist sem hún hafi ekki verið mjög ólík okkar eigin hnetti í dag!

Skemmtileg staðreynd: Vísindamenn telja að fyrir milljörðum ára hafi orðið á Mars mestu flóð í sögu sólkerfisins! Það er erfitt að ímynda sér það í dag því Mars er hrollkaldur hnöttur með örþunnan lofthjúp svo vatn getur ekki runnið í langan tíma á yfirborðinu.

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop

Tengdar myndir

  • Reull Vallis árfarvegur á MarsHér sést ævaforn árfarvegur á Mars. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)
  • Reull Vallis árfarvegur á MarsHér sést sami árfarvegur á Mars frá öðru sjónarhorni. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica