Halastjörnur

  • halastjarna, Hale-Bobb

Í gegnum söguna hafa halastjörnur vakið aðdáun, undrun og ótta. Í sumum menningarsamfélögum voru halastjörnur taldar glóandi skegg, í öðrum glóandi sverð og enn öðrum sítt hár.

Halastjörnur birtust óvænt á himninum. Þá trúðu menn því að himinninn væri óbreytanleg og óttuðust þær þess vegna. Sagt var að þegar halastjarna sæist á himni, væri það fyrirborði skelfilegra atburða.

Árið 1519 sáu astekar í Mexíkó halastjörnu á himninum. Leiðtogi asteka, Montezuma II, lét taka stjörnuspekinginn sinn af lífi fyrir að hafa ekki náð að spá fyrir um hana. Montezuma trúði að halastjarnan væri merki um að ríki hans væri að líða undir lok, svo þegar aðeins 400 Spánverjar réðust á ríki asteka, sem taldi nokkrar milljónir manna, gáfust þeir upp án mikillar mótspyrnu.

Í dag vitum við að halastjörnur eru frumstæðustu hnettirnir í sólkerfinu. Þær eru íshnettir sem urðu til á sama tíma og reikistjörnurnar mynduðust. Þær eru komnar mjög langt að úr köldustu afkimum sólkerfisins en þegar þær nálgast sólina byrja þær að gufa upp. Þá verður til hali.

Úr hverju eru halastjörnur?

hartley_2_b
Halastjörnur eru skítugir snjóboltar úr ís og ryki. Hér sést kjarni halastjörnunnar Hartley 2. Sjá má gasstróka standa út úr henni. Mynd: NASA/JPL/UMD

Stjörnufræðingar geta fundið út úr hverju halastjörnur eru með því að skoða ljósið frá þeim. Í ljósinu eru nefnilega fingraför efnanna sem halastjarnan er úr.

Á þennan hátt hafa stjörnufræðingar komist að því að halastjörnur eru að mestu leyti úr vatni, koldíoxíði, ammóníaki og metani en líka ryki eins og kolefni. Einnig hefur komið í ljós að halastjörnur innihalda lífræn efni. Stundum er sagt að halastjörnur séu skítugir snjóboltar.

Öll þessi efni eru gaddfreðin í halastjörnum enda halastjörnurnar komnar langt að yst úr sólkerfinu okkar þar sem er meira en 200 stiga frost!

Þegar halastjörnurnar komast nálægt sólinni byrja þær að gufa upp. Þá er sagt að þær verði virkar. Þá myndast hjúpur í kringum þær og hali úr ísnum sem þær skilja eftir sig á ferðalaginu í kringum sólina. Vindur frá sólinni blæs halanum burt svo hann stefnir alltaf frá sólinni.

Hvað eru halastjörnur stórar?

Kjarninn í dæmigerðri halastjörnu er oft aðeins 1 til 10 km í þvermál. Sumar eru stærri, ekki ósvipaðar Eyjafjallajökli eða jafnvel Mýrdalsjökli að stærð. Þær stærstu eru nokkrir tugir kílómetrar að þvermáli.

Vegna þess hve halastjörnur eru litlar er mjög erfitt að finna þær utarlega í sólkerfinu. Þegar þær hins vegar nálgast sólina hitna þær og byrja að gufa upp. Þá myndast hjúpur — nokkurs konar lofthjúpur — í kringum kjarnann sem getur orðið meira en milljón km í þvermál!

Hali halastjarna getur óhemju langur, lengri en fjarlægðin milli Jarðar og sólar!

Hvaðan koma halastjörnurnar?

Halastjörnur eiga rætur að rekja til tveggja svæða í sólkerfinu: Kuipersbeltisins (borið fram Kæpersbelti) og Oortsskýsins (borið fram Úrtsskýið).

Kuipersbeltið er rétt fyrir utan Neptúnus og þar eru sennilega mörg þúsund halastjörnur. Þær halastjörnur sem koma þaðan eru kallaðar skammferðarhalastjörnur, því þær eru innan við 200 ár að snúast í kringum sólina.

Oortsskýið er miklu lengra í burtu, hundrað þúsund sinnum lengra frá sólinni en Jörðin! Í Oortsskýinu  gætu verið margar milljónir halastjarna. Halastjörnurnar sem þaðan koma eru kallaðar langferðarhalastjörnur því þær eru mörg þúsund ár, jafnvel milljónir ára, að snúast í kringum sólina.

Hafa geimför heimsótt halastjörnur?

Tempel 1, Deep Impact
Árekstur! Deep Impact geimfarið fylgist með árekstri við halastjörnuna Tempel 1. Mynd: NASA/JPL/UMD

Nokkur ómönnuð geimför hafa heimsótt halastjörnur hingað til. Árið 1986 flugu nokkur geimför til móts við halastjörnuna Halley. Myndir sem þá voru teknar sýndu að kjarninn var skítugur snjóbolti, óreglulegur í laginu, ekki ósvipaður kartöflu! 

Í byrjun árs 2004 flaug geimfarið Stardust framhjá halastjörnunni Wild 2 (borið fram Vilt 2). Um borð var búnaður sem safnaði ryki frá halastjörnunni. Búnaðurinn var svo sendur til Jarðar svo vísindamenn gætu rannsakað sýnin í tilraunastofu.

Ári síðar varð sannköluð flugeldasýning í geimnum. Þá heimsótti geimfarið Deep Impact halastjörnuna Tempel 1. Um borð var lítið skeyti úr kopar sem vó 370 kg og var það látið rekast á halastjörnuna. Við áreksturinn myndaðist gígur og mikið efni skvettist út í geiminn. Þetta var gert til þess að finna út úr hverju halastjarnan var.

Þessa stundina er svo geimfarið Rosetta á leið til halastjörnunnar Churyumov-Gerasimenko. Árið 2014 fer farið á braut um halastjörnuna. Þá losnar lítið könnunarfar frá sem kallast Philae og á að lenda á yfirborði halastjörnunnar.

Get ég séð halastjörnu á himninum?

PANSTARRS, halastjarna
Halastjarnan PANSTARRS á himninum yfir Íslandi. Mynd: Jón Sigurðsson

Já, stundum.

Halastjörnur geta verið meðal fegurstu fyrirbæranna á næturhimninum. Þær geta orðið mjög bjartar og áberandi með langa og tignarlega hala sem teygja sig yfir stóran hluta himinsins. Það er þó frekar sjaldgæft.

Það hve glæsileg halastjarna verður er háð ýmsu, aðallega þó stærð halastjörnunnar og hversu nálægt sólinni hún kemst. Þegar stórar halastjörnur komast nálægt sólinni gufar mikið af efni upp. Þá geta þær orðið mjög áberandi á himninum í nokkrar vikur, jafnvel nokkra mánuði!

Í desember árið 2013 gæti halastjarnan ISON orðið ein sú bjartasta sem sést hefur í langan tíma. Hún kemst svo nálægt sólinni í lok nóvember að hún nánast sleikir hana. Ef halastjarnan lifir ferðalagið í kringum sólina af, mun hún ferðast upp himinninn frá Íslandi séð í desember og gæti þá orðið einstaklega glæsileg! 

Halastjarnan McNaught
Halastjarnan McNaught með glæsilegan hala yfir Paranal stjörnustöðinni í Chile í janúar árið 2007. Bjarti bletturinn vinstra megin er tunglið. Mynd: ESO

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica